Fréttir

FG-ingar með í sjúkri ást

Nemendur úr FG, þau Viktoría Ósk Sverrisdóttir, Anna Bíbí Wium Axelsdóttir, Oddur Helgi Ólafsson, Salka Björnsdóttir og Alex Leó Kristinsson sjást nú í auglýsingaherferð sem tengist vefsíðunni www.sjukast.is en plaköt úr henni hanga nú meðal annars á veggjum skólans. Að auki voru nokkrir nemendur úr FG í aukahlultverkum í herferðinni. Um er að ræða átak Stígamóta sem hefur það markmið að vekja athygli ungmenna á einkennum óheilbrigðra og ofbeldisfullra sambanda. Stígamót eru grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi. Að sögn Önnu Bíbí kom þetta samstarf við herferðina ,,sjúkást“ þannig til að þau Oddur og Anna voru í liði FG sem vann leiklistarspunakeppnina Leiktu betur í fyrra. Þar vöktu þau athygli og voru fengin til að vera með í þessari herferð, sem nú er meðal annars á samfélagsmiðlum, í skólum og félagsmiðstöðvum landsins.
Lesa meira

FG gekk vel í Flensborg

Dagur FG og Flensborgar var loksins haldinn að nýju þriðjudaginn 1.mars og fór að þessu sinni fram í Hafnarfirði. Skemmst er frá því að segja að hann gekk vel hjá FG, en við unnum í fótbolta, körfubolta, bekkpressukeppni, reipitogi kennara og bandí á milli aðalstjórna skólanna. FG-ingar fjölmenntu, en um 350 nemendur fóru í Fjörðinn i blíðunni. Stuuuuð!
Lesa meira

Undanúrslit Gettu betur: FG mætir MH næsta föstudag

FG mun mæta Menntaskólanum í Hamrahlíð í undanúrslitum Gettu betur 2022. Viðureignin fer fram í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV, föstudaginn 4.mars. Þetta varð ljóst þegar MH vann Kvennaskólann í Reykjavík föstudaginn 25.febrúar. Spennustigið eykst! Áfram FG!
Lesa meira

Stöðupróf í serbnesku

Stöðupróf í serbnesku verður haldið í FG þriðjudaginn 1. mars kl. 15:30. Skráning fer fram með því að senda póst á fg@fg.is Skráningarfrestur er til 25. febrúar. Nauðsynlegt er að nafn og kennitala próftaka komi fram. Nemendur greiða 15.000 fyrir stöðuprófið. Kennitala: 581286-1639 Bankaupplýsingar: 0318-26-13268 Réttur til próftöku byggist á því að prófgjald hafi verið greitt og auk þess verða próftakar að framvísa persónuskilríkjum með mynd þegar komið er í prófið.
Lesa meira

Fjör á vorönn: Árshátíð, skíðaferð og fleira

Kennsla á vorönn hófst miðvikudaginn 23.febrúar og stendur kennsla yfir til 18.maí, en próf hefjast daginn eftir. Sólin hækkar dag hvern á lofti og það er yfirleitt mikið fjör á vorin í skólanum, vonandi verður svo nú. Á miðnætti í dag, fimmtudaginn 24.febrúar á að létta öllum sóttvarnartakmörkunum vegna kóvid, en hvetjum við nemendur að fara varlega. Þeir sem vilja nota grímur gera það. Í félagslífinu er margt framundan, en Imbrudagar verða á sínum stað, 16. og 17.mars og þá verður árshátíð nemenda. Söngleikurinn Grettir verður frumsýndur 17.mars. Þá tekur FG þátt í fjörgurra liða úrslitum í Gettu betur á næstunni. Páskafrí er svo frá laugardeginum 9. apríl til mánudagsins 20.apríl.
Lesa meira

Stefán sýnir á Listasafni Íslands

Stefán Jónsson, einn af snjöllu myndlistarkennurum FG, tekur um þessar mundir þátt í og er með verk á sýningu sem ber heitið Sviðsett augnablik. Sýningin stendur til 8.maí næstkomandi í Listasafni Íslands. Verkin sem Stefán sýnir eru innblásin af verkum Jóhannesar Kjarval, sem er einn af frægustu listmálurum Íslands. Kjarval lést árið 1972, en hann var einu sinni á tvö þúsund króna peningaseðli, sem þótti afar fallegur, en var hins vegar tekinn úr umferð árið 2015, þar sem upphæð seðilsins þótti ekki eftirsóknarverð.
Lesa meira

FG áfram í Gettu betur

Lið FG vann sigur á liði FVA, frá Akranesi, föstudaginn 11.febrúar, í Gettu betur. Þá fór fram viðureign í átta liða úrslitum keppninnar í sjónvarpssal RÚV. FG fékk 25 stig, en FVA sjö. Þar með er ljóst að FG er komið í fjögurra liða úrslit/undanúrslit. Vel gert!
Lesa meira

Jarmið 2022: Tinna Margrét sigraði

Söngvakeppni FG, Jarmið 2022. fór fram í Urðarbrunni fimmtudaginn 10.febrúar síðastliðinn. Fjölmörg atriði voru flutt, en það atriði sem bar sigur úr býtum var flutt af Tinnu Margréti Hrafnkelsdóttur. Lóa Kolbrá Friðriksdóttir lenti í öðru sæti og Birna Berg Bjarnadóttir í því þriðja. Tinna verður því fulltrúi FG í Söngvakeppni framhaldskólanna í ár, en Tinna hefur getið sér gott orð á leiklistarsviðinu í FG, lék bæði í síðasta söngleik sem settur var upp, LEG, og sýndi einnig eigið leikverk, Pálmar, á síðasta ári.
Lesa meira

Fgallerí: Útilistaverk í nærumhverfi nemenda

Nú stendur yfir sýning á verkum nemenda hjá Sari úr SKÚL3þv05 í Fgallerí. Um er að ræða hugmyndir að útilistaverkum í nærumhverfi nemenda, sem þeir síðan unnu í þrívíddarforriti og prentuðu út í þrívíddarprentaranum á bókasafninu. Síðan bjuggu þeir til líkan af umhverfinu með útiskúlptúrnum. Sjón er sögu ríkari!
Lesa meira

Gettu betur: FG mætir FVA í sjónvarpinu á föstudaginn

FG mætir FVA (Fjölbrautaskóla Vesturlands) í sjónvarpskeppni Gettu betur á föstudagskvöldið kl. 20.00. Keppnin fer fram í sjónvarpi allra landsmanna, RÚV. Sjónvarpskeppnin hófst síðastliðinn föstudag, en þá vann Versló viðureign gegn Fjölbrautaskóla Suðurlands nokkuð auðveldlega. Þau Dagmar, Kjartan og Þráinn hafa verið við stífar æfingar að undanförnu og hafa þær gengið vel að sögn Dagmar og er létt yfir liðinu. Það skýrist því á föstudaginn hvort lið FG kemst í fjögurra liða úrslit. Allir að horfa – áfram FG
Lesa meira