Af hverju þriggja anna kerfi í FG?
- Þriggja ára stúdentspróf kallar á að nemendur þurfi að taka fleiri einingar en áður á önn. Í tveggja anna kerfi þurfa þeir að taka 7-8 áfanga á önn. Það reynist flestum nemendum mjög erfitt og teljum við að styttri annir með færri áföngum í einu hjálpi nemendum að ná árangri.
- Við teljum að styttri annir hjálpi nemendum að halda betri einbeitingu og hafa úthald önnina á enda en í tveggja anna kerfi.
- Þriggja anna kerfi gerir það auðveldara fyrir nemendur að ljúka (löngum) mörgum áföngum í námsgrein(um) þar sem heildarfjöldi anna eru níu í stað sex ef nemendur ætla að ljúka á þremur árum. Dæmi: Stærðfræðiáfangar á náttúrufræðibraut-tæknisviði eru sex og því að lágmarki einn stærðfræðiáfangi á önn í tveggja anna kerfi. Í þriggja anna kerfi deilast þessir sex áfangar á níu annir.
- Þriggja anna kerfi mun ekki breyta því hvað nemendur ljúka mörgum einingum á hverju ári. Skólaárið mun hefjast á sama tíma og áður og mun ljúka á sama tíma og áður.
- Aðalbreytingin er að nemendur taka færri áfanga í einu og þar af leiðandi verða kennslutímar í hverri viku fleiri í hverjum áfanga.
Hvernig virkar þriggja anna kerfi.
Dagatalið breytist lítt hvað varðar byrjun og enda. Í stað tveggja anna koma þrjár jafnlangar annir, 60 dagar hver önn. Tveir - þrír námsmatsdagar verða inni á önninni. Ekki er kennsla þá daga en möguleg verða nemendur kallaðir inn t.d. til ljúka námsmati sem þeir hafa misst af. Lokaprófum fækkar verulega en einhver lokapróf verða og gera má fyrir prófum fyrstu þrjá námsmatsdagana í lok annar. Gera má ráð fyrir að nemendur verði eftir það lausir við fram að byrjun næstu annar.
Nemendur eru í 320 mínútur á viku auk smiðju í hverjum fimm eininga áfanga. Stokkatafla getur hugsanlega tekið breytingum á milli anna.
Almennt lýkur kennslu kl. 15:15 nema á föstudögum kl. 14:30.