Saga skólans

Upphaf skólans

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ var formlega stofnaður 1. ágúst 1984 með sérstökum samningi
er gerður var á milli menntamálaráðuneytisins og bæjarstjórnar Garðabæjar. Í samningi
þessum er kveðið á um fyrirkomulag skólahalds og hljóðar 1. grein svo: ,,Í Garðabæ skal
starfa skóli fyrir nemendur á framhaldsskólastigi er sjái um allt nám þar að loknum
grunnskóla. Skólinn skal taka við framhaldsnámi sem verið hefur við Garðaskóla".
Árið 1978 voru stofnaðar framhaldsdeildir við Garðaskóla og nefndar Fjölbrautir Garðaskóla.
Nemendur gátu lokið þar tveggja ára námi en urðu síðan að leita til annarra skóla.
Framhaldsdeildunum óx fiskur um hrygg og vorið 1982 útskrifuðust fyrstu stúdentarnir frá
Fjölbrautum Garðaskóla með hjálp Flensborgarskóla.

Húsnæði


Skólinn er til húsa að Skólabraut 6 Garðabæ. Hinn 19. nóvember 1993 var undirritaður samningur milli ríkisins annars vegar og sveitarstjórna Garðabæjar og Bessastaðahrepps hins vegar um byggingu á nýju skólahúsi við Bæjarbraut í Garðabæ. Flutt var inn í nýja og glæsilega byggingu í september 1997.

Hlutverk

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla

Í annari grein laganna er fjallað um hlutverk framhaldsskóla:
Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Innan framhaldsskóla skal velferð og farsæld nemenda höfð að leiðarljósi.
Framhaldsskólar búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Þeir skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar. Framhaldsskólar sinna miðlun þekkingar og þjálfun nemenda þannig að þeir öðlist færni til að gegna sérhæfðum störfum og hafi forsendur til að sækja sér frekari menntun.

Auk þessara almennu markmiða leitast Fjölbrautaskólinn í Garðabæ við að vera
virkt afl í menningarlífi síns umhverfis.