Fjölbrautaskólinn í Garðabæ (FG) hefur að markmiði að jafnræðis og jafnréttis sé gætt á öllum sviðum skólastarfsins. Í því felst að óheimilt er að mismuna starfsmönnum/nemendum eftir aldri, kynferði, kynþætti, kynhneigð, fötlun, þjóðerni, trúarskoðunum, stjórnmálaskoðunum eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum. Mikilvægt er að jafnréttisstefnan sé virt og unnið í anda hennar.
FG skal leitast við að hafa í þjónustu sinni sem hæfast starfsfólk á hverjum tíma. Starfsfólk skal standa jafnt að vígi hvað varðar vinnuaðstöðu, starfskjör og möguleika til sí- og endurmenntunar. Stefnt skal að því að ekki sé mælanlegur launamunur milli kynja. Nemendum skal mæta á þeirra forsendum og leitast við að bjóða þeim nám við hæfi. Leitast er við að sjónarmið allra eigi greiða leið innan stofnunarinnar.
Til þess að ná ofangreindum markmiðum mun FG fylgja eftirfarandi áætlun:
- Hlutfall kynja skal vera sem allra jafnast á öllum sviðum.
- Jafnræðis skal gætt þegar komið er fram fyrir hönd skólans og lögð áhersla á að nemendur séu meðvitaðir um gildi jafnræðis í stjórnum, ráðum og annarri starfsemi nemendafélagsins.
- Jafnræðis skal gætt í stjórnunarstörfum.
- Jafnræðis skal gætt varðandi sömu möguleika til starfsframa.
- Launaákvarðanir byggjast á kjarasamningum og lögum óháð kynferði.
- Starfsfólk hefur sömu möguleika til starfsþjálfunar og sí- og endurmenntunar til að auka hæfni sína í starfi og möguleika til bættra starfskjara.
- Allir eru hvattir til að taka fæðingarorlof í samræmi við gildandi heimildir.
- Skipulag vinnunnar gefi möguleika á sveigjanlegum vinnutíma og eða hlutastörfum eftir því sem hægt er, einkum hjá foreldrum/forráðamönnum ungra barna.
- Skólinn leggi metnað sinn í að standa vel að gerð starfsauglýsinga og að gæta þar jafnréttissjónarmiða.
Skólinn er einnig með áætlun í málefnum hinsegin fólks sem er nánari útfærsla á jafnréttisstefnunni hvað varðar hinsegin fólk.
Hinsegináætlun Fjölbrautaskólans í Garðabæ:
Eins og kemur fram hér að ofan er óheimilt er að mismuna nemendum eða starfsfólki skólans vegna kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna (hér eftir “hinsegin fólk”).
- Framlag hvers og eins í skólasamfélaginu skal metið að verðleikum og allir eiga rétt á virkri þátttöku.
- Nemendafélagið og undirnefndir þess, sem og Leikfélagið Verðandi skulu leggja áherslu á jákvætt andrúmsloft fyrir hinsegin nemendur í öllu félags- og skólastarfi.
- Öll kennsla við skólann sem og menningarstarf skal taka mið af því að nemendur, starfsfólk og fjölskyldur allra gætu verið hinsegin. Þannig gera nemendur og starfsfólk ekki ráð fyrir því að nemendur, kennarar eða fjölskyldur allra séu aðeins sís-kynja og/eða gagnkynhneigðir.
- Kennarar geri fjölbreytileika mannlífisins sýnilegan í starfi og kennslu með því að nota einnig sögu og menningu hinsegin fólks eins og kostur er. Margs konar fjölskyldugerðir skal ræða á fordómalausan og opinskáan hátt.
- Starfsfólk skapar andrúmsloft sem er laust við fordóma gagnvart hinsegin samstarfsfólki og á það við í starfi og leik á vinnustaðnum.
- Skólastjórnendur skulu sjá til þess nemendur og starfsfólk hljóti hinsegin fræðslu til að tryggja það að hinsegin fólk njóti virðingar og að um það sé fjallað í samræmi við almennan hluta aðalnámskrár frá árinu 2011.
- Við undirbúning ákvarðana er varða hinsegin fólk skal hafa samráð við hagsmunasamtök þeirra.
Framkvæmdaráætlun:
- Í skólanum skal vera sérstakur fulltrúi hinsegin fólks sem nemendur, starfsmenn og foreldrar/forráðamenn geta leitað til með spurningar og ráðleggingar. Sérstök áhersla verður á að safna upp þekkingu innan skólans með það að markmiði að geta vísað á aðila sem geta veitt sérfræðiaðstoð. Hinsegin fulltrúinn mun verkefnastýra þessari áætlun og sjá til þess að hún verði framkvæmd.
- Nemendur, starfsmenn og forráðamenn munu á hverju ári njóta fræðslu í málefnum hinsegin fólks.
- Fræðsla fyrir starfsmenn:
- Þeir fá fræðslu um málefni hinsegin fólks og mikilvægi þess að minnka fordóma í skólanum og samfélaginu öllu.
- Kennarar fá fræðslu og leiðbeiningar um hvert þeir geti leitað til að auka fjölbreytileika kennsluefnis og miða það að sögu, fræðum og menningu hinsegin fólks.
- Fræðsla fyrir nemendur:
- Málefnum og stefnu skólans í málefnum hinsegin fólks verður gert hátt undir höfði í daglegu lífi skólans t.d. með þemadögum.
- Allir nýnemar fá fræðslu um málefni hinsegin fólks.
- NFFG og stjórn skólans vinna saman að því að efla fræðslu um stöðu hinsegin fólks og minnka fordóma.
- Fræðsla fyrir foreldra / forráðamenn
- Allir foreldrar/forráðamenn verða upplýstir um stefnu skólans.
- Foreldrum/forráðamönnum er boðið upp á fræðslufund þar sem farið er yfir málefni hinsegin fólks.
- Skólastjórnendur munu skoða allar hliðar skólastarfsins til þess að gera skólasamfélagið eins hinseginvænt og hægt er. Þar á meðal:
- Að einfalda verkferla á skrifstofu til að auðvelda nemendum að nota það nafn sem þeir kjósa í öllu skólastarfi.
- Að skoða verkferla og próf varðandi kynjað tungumál til að gæta jafnréttis allra kynja.
- Vinna með nemendastjórn skólans að því að skapa jákvætt og gefandi andrúmsloft í skólastarfi fyrir alla nemendur.
- Stefna Fjölbrautaskólans í Garðabæ í hinsegin málefnum verður endurskoðuð reglulega í ljósi nýjustu rannsókna á sviði hinsegin málefna.
Uppfært 11. apríl 2019