Jarðfræðinemar á Arnarneshæðinni í blíðunni.
Hópur jarðfræðinema skrapp um daginn út í góða veðrið til að kynna sér jarðfræði og landmótun í nærumhverfi skólans. Meðal annars var skoðaður stöpull sem þýski jarðfræðingurinn Alfred Wegener setti upp á Arnarneshæðinni árið 1930.
Wegener setti fram ,,Landrekskenninguna“ árið 1915, en hún gengur út á að landaskipan hafi breyst með tímanum og ýmsir landflekar hafi hreyfst til.
Stöpullinn á Arnarneshæðinni átti að vera fastur mælipunktur á Íslandi, en sambærilegur punktur er til dæmis á Grænlandi.
Þeir sem hafa numið jarðfræði vita ef til vill líka að Ísland er á tveimur landflekum, Evrasíuflekanum og Norður-Ameríkuflekanum og mætast þeir meðal annars á Reykjanesi, ekki langt frá gosstöðvunum við Fagradalsfjall. Flekaskilin eru vinsæll ferðamannastaður.