Hollensku nemarnir skoðuðu meðal annars nýrunnið hraun á Reykjanesskaga og Gunnuhver.
Hópur hollenskra menntaskólanema frá Amsterdam kom í heimsókn til FG í vikunni, þau komu um síðustu helgi og fara þau út aftur sunnudaginn 16.10. Þau hafa verið með nemendum og notað tímann til þess að kynnast landi og þjóð.
Meðal annars fóru þau í fína ferð um Reykjanesskagann síðastliðinn mánudag í blíðskaparveðri með Sigurkarli og Gunnari. Pizzuveisla eftir það í FG og allir glaðir.
Fóru þau einnig í gönguferð um miðbæ Reykjavíkur í grenjandi rigningu eftir hádegi á þriðjudaginn með þeim síðarnefnda. Allir þornuðu hins vegar í Fly Over Iceland.
Síðan var brunað út á land, ,,Gullni hringurinn“ tekinn og Suðurland skoðað. Í vor er svo ætlunin að hópur frá FG fari til Amsterdam og kynni sér aðstæður þar. Það er svona þegar ,,kóvidinu“ er lokið, þá fer allt á fljúgandi fart.