Unndís Ida er á leiðinni til Noregs í nám
Nemandi úr FG, Unndís Ida Ingvarsdóttir, hefur verið valin sem fulltrúi Íslands til að stunda nám við alþjóðlega menntaskólann í bænum Flekke í Noregi (Red Cross Nordic United World College).
Skólinn er hluti af alþjóðlegu skólasamtökunum og er í fararbroddi alþjóðlegrar menntunar til stúdentsprófs, með það að markmiði að menntun ungmenna með ólíkan menningarbakgrunn auki skilning og samstarf milli þjóða og menningarheima. Flekke er smábær, með aðeins um 200 íbúa, norðan við Bergen (Björgvin).
,,Þetta er mjög spennandi og ég hlakka mikið til,“ sagði Unndís í stuttu spjalli við FG.is. Aðspurð sagðist hún ekki vita hvað tekur við að náminu loknu, sem tekur tvö ár. ,,Kannski kem ég aftur hingað og klára Leiklistarbrautina, en annars býður námið upp á allskonar möguleika í öðrum löndum, að því loknu,“ sagði Unndís.
Námi Unndísar (sem er hálf-sænsk) lýkur með viðurkenndu alþjóðlegu stúdentsprófi. Við óskum henni að sjálfsögðu góðs gengis.