Tveir dúxar á vorönn: Birna Sól og Herdís Heiða

Dúxar á vorönn, Herdís Heiða Jing Guðjohnsen og Birna Sól Guðmundsdóttir með Kristni Þorsteinssyni,s…
Dúxar á vorönn, Herdís Heiða Jing Guðjohnsen og Birna Sól Guðmundsdóttir með Kristni Þorsteinssyni,skólameistara.

Sá einstæði og skemmtilegi atburður átti sér stað við brautskráningu stúdenta í FG þann 1.júní síðastliðinn að tveir nemendur voru með nákvæmlega sömu lokaeinkunn og urðu því báðir dúxar.

Þetta voru þær Birna Sól Guðmundsdóttir af listnámsbraut (myndlistarsviði) og Herdís Heiða Jing Guðjohnsen, náttúrufræðibraut (tæknisviði). Þær voru báðar með 9.4 í meðaleinkunn. Fengu þær einnig fleiri verðlaun og viðurkenningar fyrir góðan árangur í námi, en það var Anna María Gunnarsdóttir, aðstoðarskólameistari, sem stýrði afhendingu verðlauna og athöfninni í heild sinni.

Að þessu sinni voru 144 brautskráðir, sem gerir þetta stærstu brautskráningu í sögu Fjölbrautaskólans í Garðabæ, sem fagnar 40 ára afmæli á þessu ári.

Af þeim 144 sem brautskráðust voru ellefu sem luku námi í lok miðannar í febrúar síðastliðnum. En alls luku 35 nemendur námi af listnámsbrautum, 31 af viðskiptabraut, 20 af náttúrufræðibraut,16 af félagsvísindabraut, 16 af hönnunar og markaðsbraut, 13 af íþróttabraut, 8 af alþjóðabrautum og 5 með lokapróf frá FG.

Ávarp nýstúdenta fluttu saman þær Guðrún Fjóla Ólafsdóttir, Laufey Rán Svavarsdóttir og Úlfhildur Arna Unnarsdóttir. Um tónlistarflutning sáu Gréta Þórey Ólafsdóttir og Lóa Kolbrá Friðriksdóttir. Þá flutti Áslaug Hulda Jónsdóttir kveðju frá skólanefnd.

Í ræðu sinni fór Kristinn Þorsteinsson víða og fjallaði meðal annars um nýlega rannsókn á áhrifum styttingar náms til stúdentsprófs, lýðræði og kosningar, en þennan dag var einnig kosinn nýr forseti Íslands.

Sagði Kristinn skólaárið hafa verið gott og nefndi þar sérstaklega félagslíf nemenda, sem var með miklum blóma, undir stjórn Nemendafélags FG, NFFG.

Að lokum voru svo veitt gullmerki skólans, en þau Sigurkarl Magnúson og Þórunn Bergþóra Jónsdóttir, kennarar, létu af störfum eftir langan starfsferil. Þá lét Þórdís Gunnarsdóttir, stuðningsfulltrúi einnig af störfum og fékk gullmerki FG.