Frá vinstri: Tinna, Kristinn Þorsteinsson skólameistari, Rakel, Eva og Snjólaug Bjarnadóttir, aðstoðarskólameistari.
Brautskráning fór fram í Fjölbrautaskólanum Garðabæ laugardaginn 29.maí við athöfn sem var nokkurn veginn eðlileg, miðað ástandið í samfélaginu undanfarnar vikur, en hátíðarsalur skólans, Urðarbrunnur, var setinn samkvæmt gildandi sóttvarnarreglum.
Að þessu sinni voru það þrjár stúlkur sem sköruðu fram úr og dúx skólans var Tinna Rúnarsdóttir með 9.1 í meðaleinkunn af Listnámsbraut. Eva Bryndís Ágústsdóttir, einnig af Listnámsbraut, og Rakel Rebekka Sigurðardóttir af Náttúrufræðibraut komu svo fast á eftir Tinnu, með 9.0 í meðaleinkunn.
Af þeim 95 sem útskrifuðust voru 26 af listnámsbrautum, 17 af náttúrufræðibraut, 13 af félagsvísindabraut, 12 af hönnunar og markaðsbraut, 11 af íþróttabraut, 8 af viðskiptabrautum, 4 af alþjóðabrautum, 3 af sérnámsbraut og einn var með lokapróf af framhaldsskólabraut.
Um var að ræða fjórðu ,,kóvid-útskriftina“ en vonandi þá síðustu eins og Kristinn Þorsteinsson, skólameistari kom inn á í ræðu sinni. Nám í FG er samkvæmt þriggja anna kerfi og útskýrir það aukinn fjölda útskrifta.
Fjöldi nemenda fékk verðlaun fyrir góðan námsárangur, mætingu og fleira og sérstök Samfélagsverðlaun FG hlutu þær Eva Bryndís Ágústsdóttir og Anna Sóley Stefánsdóttir. Þessi verðlaun fá nemendur sem eru til mikillar fyrirmyndar í skólastarfinu.
Á þessari krækju má nálgast myndir frá athöfninni, en einnig eru myndir á fésbókarsíðu FG.