Líf og fjör í ,,Norrjé" með Erasmus

Líf og fjör í Osló. Jørgen, einn norsku kennaranna, smellti hér þessari skemmtilegu ,,sjálfu
Líf og fjör í Osló. Jørgen, einn norsku kennaranna, smellti hér þessari skemmtilegu ,,sjálfu" fyrir utan Stórþingið ,,Stortinget" í Osló.

Hópur nemenda frá FG fór til Noregs fyrir skömmu og tók þátt í Erasmsus-verkefni og dvaldi um vikutíma hjá norskum fjölskyldum. Hið sama gerði einnig hópur spænskra nemenda frá borginni Lugo á N-Spáni. Í vor koma svo Norðmenn og Spánverjar hingað til lands og dvelja í um viku hjá okkar fólki.

Verkefnið fjallar um sögu og menningu landanna og er hluti af Erasmus-áætlun Evrópusambandsins. Stór þáttur þess er hins vegar að vera bara saman og hafa gaman, einskonar ,,maður er manns gaman." Hér á eftir gefur að líta nánari útlistun á ferðinni, já ferðasaga:

Fyrsta daginn, sunnudaginn 19. janúar, nýttu nemendur til að kynnast og koma sér fyrir hjá fjölskyldum. Mánudagurinn byrjaði síðan á því að nemendur hittust í skólanum í Lilleström þar sem þeir unnu í blönduðun hópum að kynningum á menningu og siðum landanna þriggja. Að þeirri vinnu lokinni var förinni síðan heitið í norska þingið, eða ,,Stortinget" eins og heimamenn kalla það. Að lokum hittust nemendur um kvöldið í aftur í skólanum til þess að borða saman og skemmta sér.

Þriðjudagurinn var nýttur í safnaflakk þar sem að hópurinn heimsótti safn tileinkað hinum fræga norska listamanni Edvard Munch og Þjóðminjasafnið. Einnig fengu nemendur frjálsan tíma til að skoða sig um í Osló með norsku og spænsku nemendunum.

Á miðvikudeginum heimsótti hópurinn bókasafnið í Lillestrøm þar sem nemendur fengu kynningu á starfsemi safnsins, auk þess sem þeir fylgdust með norskum nemendum í frumkvöðlafræði kynna sínar vörur. Ótrúlega áhugavert og spennandi! Að því loknu var haldið til Óslóar, þar sem nemendur skemmtu sér í ratleik um borgina sem fólst í því að leysa hinar ýmsu þrautir.

Síðasta heila dag ferðarinnar, fimmtudaginn 23. janúar, nýtti hópurinn svo til að skella sér saman á gönguskíði og á sleða, enda kjöraðstæður til iðkunar á vetraríþróttum og má kannski segja að um sé að ræða ,,þjóðaríþrótt" Norðmanna, sem eiga marga snillingana á þessu sviði. Boðið var upp á grillaðar pylsur og það klikkar ekki við svona aðstæður og gott að ylja sér aðeins yfir opnum eldi.

Að lokum var komið að kveðjustund að morgni föstudagsins 24. janúar og reyndist það sumum erfitt að kveðja nýja norska vini. Það er enda óhætt að segja að þessir dagar hafi verið góðir og að okkar nemendur hafi staðið sig virkilega vel!

Öll hafa þau bætt hressilega í reynslubankann og mögulega hafa einhverjir nemendur eignast vini til lífstíðar. Fararstjórar voru þau Hilmar og Sigríður Anna.