Jafet Egill að græja tölvur til Afríku
Jafet Egill Jafetsson, nemandi á sérnámsbraut FG, hefur að undanförnu unnið að verkefn í þágu alþjóðasamfélagsins og sinnt því einstaklega vel.
Verkefnið fólst í að bæta aðstæður í skóla sem ABC Barnahjálp stofnaði í Afríkulandinu Búrkína Fasó árið 2008.
Jafet hefur yfirfarið og enduruppsett 30 tölvur sem hætt var að nota í FG og pakkað niður með skjám, snúrum og lyklaborðum.
Búnaðurinn mun koma sér sérstaklega vel þar sem nú er unnið að stækkun skólans. Hann mun nýtast víða í skólanum og á bókasafni sem verið er að endurnýja og mun bæta verulega tölvuaðstöðu nemenda og kennara.
Búrkína Faso er eitt af fátækustu ríkjum heimsins, en þar búa um 23 milljónir manna. Landið er í vestur-Afríku og þjóðarframleiðsla á mann er tæplega 900 dollarar. Til samanburðar er þjóðarframleiðsla á mann á Íslandi um 79.000 dollarar.
Það er því alveg ljóst að þessi tölvubúnaður er vel þeginn í þessu fjarlæga landi og kemur þar vonandi að góðum notum. Meðfylgjandi myndir voru teknar meðan á vinnunni stóð og þegar sending var klár.
Vel gert Jafet!