Grettir er söngleikur ársins

Svipmynd frá uppfærslunni á Gretti árið 2007, Örn Gauti Jóhannsson á innfelldu myndinni.
Svipmynd frá uppfærslunni á Gretti árið 2007, Örn Gauti Jóhannsson á innfelldu myndinni.

,,Við þurfum bara að anda með nefinu og fara eftir vindinum,“ sagði Örn Gauti Jóhannsson, leikstjóri á söngleiknum Gretti, sem verið er að hefja æfingar á um þessar mundir í Urðarbrunni hér í FG, er hann var spurður um stöðuna hjá leikfélaginu Verðandi. Þegar tíðindamaður FG.is var að vinna þessa frétt glumdu rokktónar úr Urðarbrunni...eitthvað magnað var á seyði!

Stefnt er á frumsýningu þann 17.mars (Imbrudagar) og þá verða vonandi allar hundleiðinlegar kóvidreglur fyrir bí. Það eru því um tveir mánuðir í frumsýningu á leikritinu, sem yfirleitt er einn af hápunktum skólaársins. Það voru þeir Ólafur Haukur Símonarson, Þórarinn Eldjárn (pabbi Ara Eldjárn) og Egill Ólafsson sem sömdu Gretti á sínum tíma.

Stykkið var frumsýnt í Reykjavík árið 1980, við feykilega góðar viðtökur, enda spilaði hljómsveitin Hinn Íslenski Þursaflokkur tónlistina, en það er nánast samdóma álit manna að sú sveit sé besta þjóðlagarokksveit Íslands fyrr og síðar. Fyrir henni fór nefndur Egill Ólafsson.

Söngleikurinn var svo aftur settur upp árið 2007 og grein í Morgunblaðinu frá þeim tíma segir: ,,Grettir fjallar um samnefndan heldur ólánsaman dreng sem lendir í fangelsi fyrir misheppnaðan glæp og stundar þar líkamsrækt af miklum móð. Í kjölfarið býðst honum hlutverk í sjónvarpsþætti og frægð og frami eru á næsta leiti. Leiðin á toppinn er þó ekki eintómur dans á rósum og Grettir þarf að glíma við drauginn Glám og fylgifiska frægðarinnar.“

Og nú er leiklistarhópurinn sem sagt að hefja æfingar á fullu. Örn Gauti Jóhannsson, leikstjóri er fyrrum nemandi FG, en hann var einnig á sínum tíma trymbill í hljómsveitinni Hórmónar, sem unnu Músiktilraunir árið 2016. Faðir hans er Jóhann Sigurðarson, einn ástsælasti leikari þjóðarinar, sem sýnir um þessar mundir snilli sína í þáttunum Verbúðin á RÚV. Þetta er í fyrsta sinn sem Örn Gauti leikstýrir og því frumraun hans á því sviði. Tónlistin í söngleiknum Gretti að þessu sinni verður útfærsla sem trommuleikarinn Hallur Ingólfsson (HAM/Skepna) sá um.