Geimvera í Garðabæ - nýtt leikrit í FG

Nýtt íslenskt leikrit, Geimverur í Garðabæ, verður frumsýnt í FG þann 1.nóvember.
Nýtt íslenskt leikrit, Geimverur í Garðabæ, verður frumsýnt í FG þann 1.nóvember.

Í haust hefur verið, eins og venjulega, allt á fullu hjá leikfélagi NFFG, Verðandi.

Þann 1.nóvember frumsýnir Verðandi nýtt íslenskt leikrit, Geimvera í Garðabæ.

Höfundar eru þeir Mikael Steinn Guðmundsson og faðir hans Guðmundur Rúnar Kristjánsson, sem sem er óneitanlega skemmtilegt.

Í tilkynningu á vefsíðunni TIX.is, þar sem miðarnir fást segir: ,,Þegar geimveran Gúbert brotlendir geimskipinu sínu á fjarlægri plánetu sem kallast jörðin eru góð ráð dýr. Í Garðabæ, sögusviði sýningarinnar, kynnist hann svo systkinunum Kollu og Krissa og saman lenda þau í ýmsum ævintýrum.“

Þá segir einnig að Geimvera í Garðabæ sé ...,,bráðfyndið og æsispennandi leikrit fyrir alla fjölskylduna...“ og að það sé ,,stútfullt af töfrandi söng- og dansatriðum jafnt sem fallegum skilaboðum um mikilvægi vináttu og hugrekkis.“

Sögusvið sýningarinnar eru þekkt kennileiti í Garðabæ, t.d. klukkuturninn, en nafn bæjarins kemur fyrir í nafni sýningarinnar. Það gerir hana að einstökum menningarviðburði í bænum, en markhópurinn eru fjölskyldur og börn bæjarins.

Miðaverð er aðeins 2000 krónur og verður það að teljast þrusugott verð, miðað við alla þá dýrtíð sem geysar hér á landi um þessar mundir.

Því er þetta tilvalið tækifæri til að komast á góða skemmtun fyrir gott verð.

Sýningar verða 1,2,3. og 10.nóvember. Þá eru skólasýningar á dagskrá, en þess má einnig geta að allur ágóði af miðasölu sýningarinnar þann 2.nóvember mun renna til neyðarsöfnunar Unicef fyrir börn á Gaza.