Fjöldi FG-inga í Svörtu söndum 2

Svipmyndir frá tökum á Svörtu söndum 2, en fjöldi FG-inga kom að gerð þáttanna. Á myndinn lengst til…
Svipmyndir frá tökum á Svörtu söndum 2, en fjöldi FG-inga kom að gerð þáttanna. Á myndinn lengst til vinstri eru Örn Árnason, Baldvin Z, Mikael Steinn og Ásta Fanney (sem eru einnig á stóru myndinni).

Spennuþáttaröðin Svörtu sandar II var frumsýnd á Stöð tvö þann 6.október síðastliðinn, en þetta er framhald af samnefndri þáttaröð, sem frumsýnd var árið 2021.

Í nýju þáttaröðinni leikur bókstaflega ,,haugur“ af FG-ingum sem öll eiga það sameiginglegt að vera á, eða hafa verið á leiklistarbrautinni í FG.

Þetta eru þau; Þórður Baldvinsson, Edda Guðnadóttir, Ásta Fanney Pétursdóttir, Pálína Rós Ingadóttir og Mikael Steinn Guðmundsson.

Mikael Steinn sagði í spjalli við FG.is að það hefði komið tökuliðinu skemmtilega á óvart þegar það fréttist út að þau öll væru í sama skóla og á sömu braut.

Að sögn Mikaels gengu tökurnar mjög vel, en það er einn þekktasti kvikmyndaleikstjóri Íslands, Baldvin Z, sem leikstýrir flestum þáttanna, fjórum af átta.

Baldvin Z gerði meðal annars kvikmyndirnar Vonarstræti og Lof mér að falla og hefur komið að fjölda annarra þátta. Í  Svörtu söndum 2 kemur hann einnig að gerð handrits.

Tökur fóru að mestu fram í Reykjavík, en einnig á Suðurlandinu, á Kirkjubæjarklaustri og í Vík í Mýrdal.

Mikið úrvalslið bæði, eldri og yngri leikara koma að þáttunum, meðal annars Pálmi Gestsson, Aldís Amah, Aron Már Ólafsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Ævar Þór Benediktsson (vísindamaður).

Mikael Steinn sagði við FG.is að þetta hefði verið ,,æðisleg lífsreynsla og frábært ferli,“ eins og kann komst sjálfur að orði. Spennan magnast.

Edda, Þórður og Pálína í Svörtu söndum II.