...og svo upp með húfurnar!
Brautskráning á haustönn frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ fór fram við hátíðlega athöfn í Urðarbrunni föstudaginn 22.nóvember síðastliðinn.
Af þeim 36 sem útskrifuðust voru níu af viðskiptabrautum, sjö af bæði hönnunar og markaðsbraut og af listnámsbrautum, fimm af náttúrufræðibraut, fjórir af félagsvísindabraut, og tveir af bæði alþjóðabraut og íþróttabraut.
Við athöfnina fékk María Elísabet Halldórsdóttir verðlaun fyrir góðan árangur í frönsku og flutti hún einnig tvö píanóverk. Sigyn Ás Sigmarsson fékk verðlaun fyrir góðan árangur í raungreinum og Oliwia Gabriela Rucinska fékk verðlaun frá félagi Soroptimista í Hafnarfirði fyrir góðar framfarir í námi.
Margrét Gígja Arnarsdóttir Baxter flutti skemmtilegt ávarp nýstúdents og þá fengu Hjördís Lilja Birgisdóttir og Salka Khushboo Hjartardóttir verðlaun fyrir mætingu.
Með húfur á kollum og bros á vör fóru síðan nýstúdentarnir út í fallegt vetrarsíðdegið til að fagna og njóta lífsins. Við óskum ykkur velfarnaðar.