,,FG er æði" - segir nýr forseti NFFG

Kolfinna Þórðardóttir er forseti NFFG og finnst FG æði.
Kolfinna Þórðardóttir er forseti NFFG og finnst FG æði.

Nú er félagslífið komið á fulla ferð í FG og í fyrstu vikunni í september var til að mynda farið í nýnemaferð. Ný aðalstjórn er tekin við og nýjar nefndir. Yfir öllu saman, sem forseti NFFG, er Kolfinna Þórðardóttir og FG.is tók hana tali fyrir skömmu og spurði fyrst hver væru fyrstu verkefni nýs forseta.

,,Það er að efla samskiptin milli nemenda og skólastjórnar og passa upp á að næsta skólaár verði sem allra skemmtilegast,“ sagði Kolfinna, sem stundar nám á Félagsvísindabraut.

Aðspurð um breytingar eða nýjungar hjá nýrri stjórn sagði Kolfinna það alls ekki útilokað, en hún tók fram að ætlunin væri meðal annars að endurvekja gamlar hefðir eins og Þórsmerkurferðina, en fyrir þá sem ekki vita er Þórsmörk einn fallegasti staður á Íslandi.

En hverjar eru skyldur forseta NFFG og hefur hann einhver völd?

,,Mitt hlutverk og mínar skyldur sem forseti er að vera fyrirmynd skólans og halda góðri stemmingu innan skólans,“ sagði Kolfinna. ,,Varðandi völdin, þau eru kannski ekki svo mikil, en jú, kannski að hafa áhrif á niðurstöður hjá nefndum,“ bætti hún við.

Henni finnst mest spennandi við forsetaembættið að geta haft áhrif á félagslífið, vera í samskiptum við fólk og að uppfylla þarfir nemenda. Hún lýsir sjálfri sér sem metnaðarfullri og jákvæðri. ,,Ég tel mig líka vera hlýja manneskju, ef þannig má að orði komast,“ sagði Kolfinna í spjalli við FG.is.

Hún er ánægð með kynjahlutföllin í nefndum skólans, sem eru nokkuð jöfn og þá segir hún einnig að fjárhagsstaða NFFG sé nokkuð góð.

Kolfinnu fannst gaman að bjóða sig fram í vor til forseta og er mjög ánægð með kosningabaráttuna: ,,Það var frábært að sjá hvað allir lögðu mikinn metnað í það sem verið var að gera,“ sagði Kolfinna.

En að lokum, hvað finnst þér svo um FG? ,,FG er æði,“ sagði Kolfinna Þórðardóttir og það stóð ekki á svarinu! Þakkar FG.is henni fyrir spjallið og óskar henni og nefndum skólans velfarnaðar í sínum störfum á skólaárinu sem var að hefjast.

Ný stjórn NFFG, frá vinstri; 

Jónas Breki Kristinsson - Formaður íþró
Ásgeir Óli Egilsson - Fjármálastjóri
Daníel Orri Árnason - Varaforseti
Kolfinna Björt Þórðardóttir - Forseti
Kristín Jóhanna Svansdóttir - Skemmtanastjóri
Erla Mjöll Daðadóttir - Markaðsstjóri
Eva Júlía Ólafsdóttir - Formaður Málfundafélagsins