Þessi flotti hópur Ingvars safnaði dósum fyrir einstök börn.
Nemendur í áfanganum Viðburðastjórnun stóðu fyrir dósasöfnun á dögunum fyrir Einstök börn, stuðningsfélag fyrir börn með sjaldgæfa sjúkdóma og heilkenni. Í fyrra og söfnuðust 165 þúsund krónur, en í ár söfnuðu nemendur yfir helmingi meira, eða rúmlega 360 þúsund krónum. Söfnunin var hluti af lokaverkefni nemendanna sem er tileinkað Félagi Einstakra barna.
Nemendur buðust til þess að sækja dósir heim til fólks og tóku einnig á móti dósum frá nemendum og starfsfólki við skólann. „Söfnunin gekk vonum framar og nemendur áfangans stóðu sig vel. Vonandi fáum við jafn góðar viðtökur á næsta ári.” sagði Ingvar Arnarson, sem kennir áfangann.
Hópurinn safnaði dósunum saman í skólann og hjálpaðist síðan að við að flytja þær í endurvinnslu. Gríðarlega góð samvinna var innan hópsins og nemendur eru ánægðir með útkomu verkefnisins.
Viðburðurinn hefur verið haldinn síðastliðin tvö ár og vonast er til að hann haldi áfram á næstu árum, en áfanginn er kenndur á hverju vori.
Við viljum benda þeim sem hafa áhuga að skoða félagið og fara á heimasíðu www.einstokborn.is og hvetjum alla að gerast styrktaraðili Einstakra barna.