Allt komið á fullt - daginn lengir

Nú er kennsla komin á fullt í FG eftir jólafrí og allir vonandi búnir að dusta rykið af kennslubókunum.

Og þó það sé dimmt og drungalegt á morgnana, þá er daginn tekið að lengja og ferskar ,,birtumínútur“ bætast við daglega, á bilinu fimm til sjö stykki.

Kennslunni lýkur á miðönn fimmtudaginn 13.febrúar, það er síðasti kennsludagurinn á önninni. Ný önn, vorönn, hefst svo þriðjudaginn 25.febrúar.

Það sem ber ef til vill hæst er að spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, er að rúlla í gang og þar er FG að sjálfsögðu með öflugt lið. Fyrsta viðureign FG verður á Rás 2 þann 13.janúar næstkomandi og hvetjum við áhugasama til að leggja við hlustir.

Svo eru æfingar komnar á fullt á nýju leikriti hjá leikfélaginu Verðandi, en á Imbrudögum á vorönn er ávallt frumsýnt leikrit. Það er því nóg fram undan.