Frá uppsetningu Borgarleikhússins á Gulleyjunni,skrautlegt lið!
,,Æfingar ganga bara mjög vel og það er góð stemmning í hópnum,“ sagði Smári Hannesson, varaformaður Leikfélagsins Verðandi, þegar FG.is hafði samband til að forvitnast um hvað væri í gangi.
En þessa dagana standa yfir æfingar á fullu á ævintýrasöngleiknum Gulleyjunni, sem verður frumsýndur þann 12.mars næstkomandi.
Alls eru 28 leikarar sem taka þátt í sýningunni en það eru þeir Karl Ágúst Úlfsson og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson (úr hljómsveitinni Todmobile) sem eru höfundar texta og tónlistar.
Leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson, en hann er m.a. þekktur fyrir að leikstýra kvikmyndunum Astrópíu og Ömmu Hófí, fjórum áramótaskaupum og um 40 leiksýningum. Vanur maður þar. Söngstjóri er Gunnlaugur Bjarnason og dansstjóri er Aníta Rós Þorsteinsdóttir.
Gulleyjan er ein frægasta sjóræningjasaga sem skrifuð hefur verið og er sögð vera fyrirmynd annarra slíkra. Það er Skotinn Robert Louis Stevenson, sem er höfundur sögunnar.
Sagan segir frá hinum einfætta kapteini Flint og fjársjóð nokkrum sem grafinn er á eyju einni í Karabíska hafinu. Best að segja ekki meira en inn í söguna fléttast skrautlegar persónur og úr verður mikið ævintýri.
Gulleyjan var sýnd hjá Borgarleikhúsinu fyrir nokkrum árum síðan og þar var Björn Jörundur úr Nýdönsk í aðalhlutverki. Hér er klippa úr þeirri uppfærslu.
Það þarf marga til að vinna að svona sýningu og leitar Verðandi að fólki í undirnefndir og þær eru opnar öllum nemendum FG. Hægt er að skrá sig á www.verdandi.is
,,Við þurfum að fá vel mannaðar undirnefndir, þær eru okkur mjög mikilvægar,“ sagði Smári að lokum og það stefnir í fjöruga Gulleyju á vorönn. Hvetjum nemendur til að skrá sig, að starfa í leikhúsi er mikið stuð.