Inngangur
Starfsmannastefna Fjölbrautaskólans í Garðabæ tekur til allra starfsmanna skólans. Henni er ætlað að vera til hvatningar og upplýsingar fyrir alla starfsmenn skólans.
Starfsmannastefnan lýsir vilja skólans til að vera góður vinnustaður þar sem gott starf er unnið af áhugasömu, samstilltu og ábyrgu fólki í anda jafnræðis. Starfsmannastefnunni er ætlað að tryggja starfsmönnum sem best starfsskilyrði og möguleika til að vaxa og dafna í starfi.
Markmið
Markmið starfsmannastefnu Fjölbrautaskólans í Garðabæ er að skólinn gegni lögmæltu hlutverki sínu, svo sem kveðið er á um í 2. gr. laga um framhaldsskóla nr. 80/1996, og uppfylli réttmætar væntingar sem gerðar eru til skólans og starfsmanna hans. Til þess að svo megi verða þarf Fjölbrautaskólinn í Garðabæ að hafa á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem helga krafta sína skólanum og þeirri kennslu-, fræðslu- og þjónustustarfsemi sem þar fer fram og bregðast við síbreytilegum þörfum nemenda og þjóðfélags.
Áherslur skólans endurspeglast í leiðarljósum hans:
- Árangursríkt og metnaðarfullt skólastarf / vönduð vinnubrögð / fagmennska
- Þekking, ábyrgð, sjálfstæði
- Frumkvæði
- Samvinna og sveigjanleiki
- Virðing og trúnaður
1. Ráðningar
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ vill ráða til sín og hafa í þjónustu sinni hæfa, dugandi og heiðarlega starfsmenn sem þykir eftirsóknarvert að starfa við skólann vegna þeirra vinnubragða, starfsaðstöðu og starfsanda sem þar er og vegna þeirra launakjara sem þar eru í boði. Allar ákvarðanir um ráðningar skulu vera vel rökstuddar og byggðar á málefnalegum sjónarmiðum með hliðsjón af starfslýsingum. Reynslutími er almennt sex mánuðir og er sá tími nýttur til að meta frammistöðu starfsmanna innan skólans.
Starfsauglýsingar: Fjölbrautaskólinn í Garðabæ telur mikilvægt að þeirri meginreglu sé fylgt að laus störf séu auglýst. Skólinn leggur metnað sinn í að standa vel að gerð starfsauglýsinga og að gæta þar jafnréttissjónarmiða.
Móttaka og fræðsla nýrra starfsmanna: Fjölbrautaskólinn í Garðabæ leggur áherslu á að taka vel á móti nýjum starfsmönnum og að þeim líði vel í starfi frá upphafi. Nýir starfsmenn skulu fræddir um starfsemi skólans og það sem lýtur að starfssviði þeirra og um réttindi þeirra og skyldur. Stjórnandi er ábyrgur fyrir því að nýjum starfsmanni sé veitt slík fræðsla. Huga skal sérstaklega að leiðbeiningum til erlendra starfsmanna og þeir hvattir til íslenskunáms.
2. Starfsþróun
Fjölbrautaskólanum í Garðabæ er það kappsmál að veita öllum starfsmönnum trausta og góða starfsþjálfun og skapa aðstæður til að viðhalda og auka þekkingu og fagmennsku þeirra með endur- og símenntun. Starfsmönnum skólans skal gefinn kostur á að sækja ráðstefnur og fara í kynnisferðir og rækja þannig samstarf við innlend og erlend starfssystkin eftir því sem kostur er enda sé þjálfunin markviss og sýnt að hún muni nýtast í starfi. Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að síbreytilegum kröfum sem starfið gerir til þeirra, svo sem vegna faglegrar og tæknilegrar þróunar og vera reiðubúnir að þjálfa sig til nýrra og breyttra verkefna. Skólinn leitast við að verða við óskum starfsmanna um breytingar á störfum eftir því sem við á. Þróun faglegrar hæfni starfsmanna er á ábyrgð starfsmanna og stjórnenda.
Starfsmannasamtöl: Fjölbrautaskólinn í Garðabæ leggur áherslu á að starfsmannasamtöl fari fram einu sinni á ári og eru þau vettvangur samræðu milli starfsmanna og stjórnenda. Tilgangur samtalanna er að stuðla að velferð starfsmanna, gæðastjórnun og bættum starfsárangri sem og gagnkvæmri upplýsingamiðlun. Samtölunum er ætlað að auðvelda starfsmönnum og stjórnendum að ná settum markmiðum, að skerpa vitundina um þessi markmið og þá ábyrgð sem þeim fylgir. Starfsmannasamtölunum er einnig ætlað að byggja upp gagnkvæmt traust og þar fer fram umræða um líðan starfsmanna á vinnustað. Mikilvægt er að starfsmannasamtöl séu vandlega undirbúin, þeim sé fylgt eftir, úrræði séu skipulögð og trúnaðar sé gætt á öllum stigum. Skólameistari ber ábyrgð á að starfsmannasamtöl séu skipulögð með faglegum hætti.
3. Jafnrétti
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ leggur áherslu á að jafnræðis og jafnréttis sé gætt á öllum sviðum skólastarfsins. Í því felst að óheimilt er að mismuna starfsmönnum eftir aldri, kynferði, kynþætti, kynhneigð, fötlun, þjóðerni, trúarskoðunum, stjórnmálaskoðunum eða af öðrum ómálefnanlegum ástæðum. Jafnréttisstefna Fjölbrautaskólans í Garðabæ hvílir á þremur meginstoðum: Jafnréttisáætlun, stefnu í málefnum fatlaðra og stefnu gegn mismunun. Mikilvægt er að starfsmenn virði jafnréttisstefnuna og vinni í anda hennar.
4. Samskipti og boðmiðlun
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ vill stuðla að góðum starfsanda þar sem ríkir traust, trúnaður, jafnræði og hreinskilni í samskiptum milli starfsmanna. Starfsmenn skulu temja sér kurteisi og háttvísi í framkomu og auðsýna hver öðrum virðingu, umburðarlyndi og jákvætt viðmót.
Til að skapa góðan starfsanda vill skólinn:
- Hvetja starfsmenn til að sýna kostgæfni í starfi og rækta fagleg samskipti sín á milli.
- Tryggja greiðan aðgang starfsmanna að gögnum, m.a. með öflugri upplýsingatækni.
Verði starfsmenn uppvísir að ósæmilegri framkomu í garð samstarfsmanna sinna, s.s. kynferðislegri áreitni eða einelti, teljast þeir brjóta grundvallarreglur samskipta á vinnustað sem getur leitt til áminningar, jafnvel uppsagnar. Stjórnendum ber skylda til að upplýsa starfsmenn um málefni sem varða starfsemi skólans með reglulegum fundum og öðrum leiðum. Allar upplýsingar um stefnu og starfsemi Fjölbrautaskólans í Garðabæ skulu ávallt vera öllum starfsmönnum aðgengilegar og skiljanlegar.
5. Laun, starfsskilyrði - vinnuvernd
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ leitast við að tryggja hverjum starfsmanni þau skilyrði og þá aðstöðu sem hann þarf til að rækja starf sitt vel. Starfsöryggi sé tryggt svo sem frekast er unnt.
Launamál: Fjölbrautaskólinn í Garðabæ vill búa starfsmönnum sínum góð launakjör, starfsskilyrði og starfsaðstöðu svo að hann geti ráðið til sín og haldið hæfum starfsmönnum. Laun skulu ákvörðuð með sanngjörnum hætti á grundvelli hlutlægra og gagnsærra mælikvarða í samræmi við gerða stofnanasamninga. Starfslýsingar skulu ávallt liggja fyrir og þess skal sérstaklega gætt að starfsmönnum sé ekki mismunað í launum vegna kynferðis eða annarra ómálefnanlegra ástæðna.
Vinnutími og fjölskylduábyrgð: Fjölbrautaskólinn í Garðabæ vill að vinnuálagi starfsmanna sé að jafnaði í hóf stillt. Skólinn vill eftir megni taka tillit til óska þeirra um vinnutíma og starfshlutfall. Lögð er áhersla á góða ástundun og stundvísi. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ leitast við að skapa starfsmönnum sínum aðstæður til að samræma þær skyldur sem starfið og fjölskyldan leggja þeim á herðar. Starfsmönnum skal gefinn kostur á tímabundinni lækkun á starfshlutfalli og sveigjanlegum vinnutíma vegna fjölskylduábyrgðar eftir því sem unnt er og án þess að það hafi áhrif á starfsframa þeirra. Skólinn hvetur feður sérstaklega til þess að nýta sér möguleika sína til að samræma starfs- og fjölskylduábyrgð.
Launalaus leyfi: Fjölbrautaskólanum í Garðabæ er heimilt að veita starfsmönnum skólans launalaus leyfi, í eitt ár á fimm ára tímabili, hafi þeir að jafnaði starfað samfellt við skólann í fimm ár. Skólameistari veitir leyfið samkvæmt sérstökum reglum er um það gilda.
Starfsaðstaða og öryggi starfsmanna: Fjölbrautaskólinn í Garðabæ skal láta hverjum starfsmanni í té aðstöðu sem gerir honum kleift að sinna starfi sínu af kostgæfni. Stjórnendur skólans meta þörf starfsmanna fyrir starfsaðstöðu, s.s. fyrir rými og tækjakost sem þeir þurfa til að rækja starf sitt. Taka skal sérstakt tillit til starfsmanna með fötlun.
Skólinn skal leitast við að tryggja öllum starfsmönnum sínum gott starfsumhverfi sem fullnægir ströngustu kröfum um öryggi, hollustu og vinnuvernd. Öryggisnefnd Fjölbrautaskólans í Garðabæ er til leiðbeiningar í þeim efnum. Starfsmenn bera sjálfir ábyrgð á að fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra um aðgætni í starfi og leggja þannig fram mikilvægan skerf til aukins starfsöryggis.
Heilbrigði og félagsstarf: Fjölbrautaskólinn í Garðabæ leggur áherslu á að starfsmenn leggi rækt við eigin heilsu og ástundi heilbrigt líferni. Skólinn veitir starfsmönnum árlega styrk til líkamsræktar og stuðlar með því að bættri líðan þeirra og heilsu. Skólinn er tóbaks-, áfengis- og vímuefnalaus vinnustaður. Í því felst m.a. að óheimilt er að vera undir áhrifum áfengis og vímuefna í starfi. Komi í ljós að starfsmaður eigi við áfengis- og/eða vímuefnavanda að stríða ber stjórnendum og/eða samstarfsmönnum að bregðast við og leita úrlausna í samráði við skólameistara.
Skólinn vill efla samvinnu og samneyti starfsmanna t.d. með því að leggja þeim til aðstöðu eftir því sem unnt er.
6. Stjórnunarhættir
Fjölbrautaskólanum í Garðabæ er stjórnað í anda þeirrar meginstefnu að veita öllum starfsmönnum, í samræmi við hæfni þeirra og eðli starfsins, virka hlutdeild í stjórnun skólans og ákvörðunum. Stuðla skal að góðum og nútímalegum stjórnunarháttum, sem m.a. felast í jákvæðu viðhorfi til samstarfsmanna og virku upplýsingastreymi. Stjórnendum ber jafnan að hafa samráð við starfsmenn um málefni vinnustaðarins er þá varða og beita sér fyrir sem víðtækastri sátt um þau. Ákvörðunarvald og ábyrgð stjórnenda gagnvart starfsmönnum skal vera vel skilgreint og starfsmönnum ljós. Stjórnendur eiga að vinna að settum markmiðum og gera starfsmönnum kleift að taka framförum, bæði faglega og persónulega.
7. Starfslok
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ vill koma til móts við óskir starfsmanna um starfslok, t.d. með að breyta starfshlutfalli eða starfsskyldum síðustu misserin í starfi. Fastráðnum starfsmönnum gefst kostur á starfslokaviðtali hjá skólameistara. Viðtalið gefur skólanum tækifæri til að draga lærdóm af ábendingum starfsmanna um það sem betur má fara í skólastarfinu.
8. Framkvæmd og eftirfylgni starfsmannastefnu
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ skal annað hvert ár gera starfsáætlun um framkvæmd starfsmannastefnu þar sem fram koma markmið, áherslur og aðgerðir skólans. Í lok hvers tímabils skulu stjórnendur meta þann árangur sem náðst hefur og skal birta niðurstöður í ársskýrslu skólans. Skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ ber ábyrgð á því að starfsmannastefnu Fjölbrautaskólans í Garðabæ sé framfylgt.
Samþykkt á skólanefndarfundi dags. 30.04. 2008
og á skólaráðsfundi dags. 28.05. 2008.