Setjum rjóma á lífið - nýstárleg fjáröflun

Látið vaða á Kristinn skólameistara, allt jú í nafni fjáröflunar.
Látið vaða á Kristinn skólameistara, allt jú í nafni fjáröflunar.

Það er ýmislegt sem nemendur í FG taka upp á, en þetta slær sennilega öll met. Þann 25.mars síðastliðinn stóðu leiklistarnemendur í áfanganum LEIK3lo05 fyrir óvenjulegri fjáröflun, en þeir eru bráðlega að fara í ferð til London.

Fjáröflunin fór þannig fram að nemendur keyptu sér rétt til þess að kasta rjómatertum framan í þá Kristinn Þorsteinsson skólameistara og Hilmar Þór Sigurjónsson, sögukennara. Þetta vakti lukku og safnaðist vænn slatti í ferðasjóðinn. Var atburðurinn opinn öllum og einhverjir starfsmenn nýttu sér meðal annars tækifærið og studdu gott málefni.

Ekki er annað að sjá á myndaröðinni sem fylgir með (f.v.) en að tertukastið hafi gengið vonum framar og gott ef að sést ekki í smá glott á rjómaþöktu andliti skólameistara þarna í lokin, til hægri.

Auðvitað allt gert í góðu og setur lit, eða rjómaslettu á skólalífið og jú, það er allt betra með rjóma.