grunnáfangi
Einingafjöldi: 5
Þrep: 1
Forkröfur: Engar
Í áfanganum læra nemendur grunnatriði teikningar með fjölbreyttum teikniaðferðum og teikniáhöldum, sem gagnast nemendum bæði á myndlistarsviði og Fata- og textílhönnunarsviði.
Byrjað verður á að þjálfa nemendur í formskilningi með því að skoða hvernig allt í umhverfinu er byggt upp úr frumformunum hringi, þríhyrningi og ferhyrningi og læra nemendur ýmsar skyggingaraðferðir til að breyta þessum formum úr tvívíðri línuteikningu í að sýnast þrívíð á tvívíðum fleti. Nemendur læra að teikna mannslíkamann eftir lifandi módeli bæði til að þjálfa formskynjun, greina rétt stærðarhlutföll og stöður líkamans og skoða og teikna hvernig klæðnaður er teiknaður á lifandi módeli. Nemendur læra að teikna rýmið í kringum sig með því að nota eins og tveggja punkta fjarvídd í teikningu og geta þannig sett bæði hluti og manneskjur í þrívítt rými þó á tvívíðum fleti sé. Nemendur læra að vinna skissu- og hugmyndavinnu út frá eigin áhugasviði jafnt og þétt alla önnina og læra síðan aðferð við að setja þá vinnu saman í bók.
Áhersla er lögð á að nemendur hengi upp verk sín og skoði þau í samhengi og þjálfist í að ræða um þau.
Nemendur kynnast íslenskum samtímalistamönnum / hönnuðum bæði í tímum og með því að fara á sýningar
Þekkingarviðmið
- hvernig þjálfa má virkni hægra heilahvelsins með ýmsum æfingum
- hvernig grunnformin móta alla hluti í umhverfi okkar
- hvernig breyta má tvívíðri línuteikningu svo sýnist þrívíð með réttum skyggingaraðferðum
- hvernig mismunandi teikniáhöld gefa mismunandi teikningar
- hvernig teikna á mannslíkamann í réttum hlutföllum svo sýnist eðlilegur í rými með og án fatnaðar
- hvernig teikna má rými með eins og tveggja punkta fjarvíddarteikningu
- hvernig vinna má hugmynda- og skissubók á fjölbreyttan og persónulegan hátt
- hvernig listamenn og hönnuðir vinna hugmyndavinnu
Leikniviðmið
- teikna eftir fjölbreyttum fyrirmyndum m.a. lifandi módeli með blýanti og penna og fleiri áhöldum svo sýnist eðlileg í rými
- breyta línum og formum á tvívíðu blaði svo sýnist þrívíð með réttri skyggingu
- teikna fatnað á lifandi manneskju svo sitji rétt á líkamanum
- teikna rými í eins og tveggja punkta fjarvídd
- vinna persónulega skissu- og hugmyndabók
- búa til bækur
- ræða um eigin verk og annarra
Hæfnisviðmið
- koma hugmyndum sínum á blað, bæði með teikningu og öðrum aðferðum
- teikna eftir fyrirmyndum með mismunandi teikniáhöldum
- búa til bækur utan um eigin verkefni
- meta og ræða um eigin verk og annarra
Nánari upplýsingar á námskrá.is