Námsmatsdagur

Sjúkrapróf / verkefnavinna

 

D. Námsmat og ágreiningur um námsmat

Skólinn gegnir fjölbreyttu hlutverki og þjónar nemendum sem stefna að mismunandi marki. Áhersla er á að námsmat styðji við þau markmið sem stefnt er að. Námsmatið skal byggja á margvíslegum námsmatsaðferðum og fela í sér traustar heimildir um hæfni nemenda. Þess skal gætt að námsmatið taki til allra þátta námsins þannig að þekking nemenda, leikni og hæfni auk framfara sé metin.
Námsmatsaðferðir geta verið verklegar, munnlegar eða skriflegar, falið í sér sjálfsmat, jafningjamat, símat og lokamat.
Almennt námsmat er í höndum kennara. Námsmat hvers áfanga skal koma fram í námsáætlun. Þar skal tilgreint nákvæmlega hvernig vægi einstakra þátta námsmatsins er og hvaða skilyrði eru sett til að áfanga sé náð.
Eftir að einkunnir hafa verið birtar nemendum er þeim gefinn kostur á að yfirfara úrlausnir sínar á prófsýningardegi. Ef skekkja kemur fram í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt. Nemendur eiga rétt á að fá útskýringar á mati sem liggur að baki lokaeinkunn í námsáfanga innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemendur, sem ekki hafa náð lágmarkseinkunn, þá eigi una mati kennarans geta þeir snúið sér til skólameistara og óskað eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveða til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður hans er endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.
Kærufrestur er í samræmi við VII. kafla Stjórnsýslulaga. Þar kemur fram að kærufrestur er almennt þrír mánuðir frá því að stjórnvaldsákvörðun (einkunn) er birt.