Kórónaveiran fékk nafn sitt vegna þess að hún er sögð líkjast kórónu. (Mynd: www.ScienceNews.org)
Kæru nemendur, foreldrar og forráðamenn.
Það hefur varla farið framhjá neinum að lýst hefur verið yfir neyðarástandi vegna Covid-19 veirunnar. Mikilvægt er að fylgjast með upplýsingum frá landlækni (www.landlaeknir.is) og almannavörnum (www.almannavarnir.is) og fylgja öllum leiðbeiningum og fyrirmælum í hvívetna.
Ég vil biðja ykkur um að mæta ekki í skólann með einkenni sem svipar til einkenna kórónaveirunnar á næstunni. Þá treysti ég því að nemendur sem eiga að vera í sóttkví skv. tilmælum landlæknis haldi sig í sóttkví. Ef þú ert að koma frá útlöndum og ert í vafa um hvort rétt væri að fara í sóttkví vil ég hvetja þig til þess að hringja í símanúmerið 1700 og fá ráðgjöf um það áður en þú mætir í skólann. Þá er mjög mikilvægt að allir hugi vel að hreinlæti og fylgi ráðleggingum þar um.
Við munum gera okkar besta til að sinna nemendum sem eru í sóttkví eða veikir heima. Eigi slíkt við ykkur bið ég ykkur að senda tölvupóst til Kristínar Helgu áfangastjóra (kho@fg.is) sem heldur utan um skráningu slíkra tilfella. Námsrágjafar munu síðan útfæra aðstoðina í samráði við kennara skólans. Mikilvægt er að muna að þarna þurfa allir að leggja sig fram. Nemendur sem sinna ekki námi meðan þeir eru heima geta ekki vænst þess að námið gangi sinn vanagang.
Fari svo að loka þurfi skólanum vegna smithættu munum við færa námið í fjarnám eftir því sem kostur er. Það skal þó ítrekað að alls ekki er víst að til þess komi að skólanum verði lokað. Við munum ljúka þessari önn hvernig sem fer og skora ég á nemendur að gefast ekki upp þó á móti blási. Skólinn mun gera sitt ítrasta til að koma til móts við þarfir ykkar. Eins og fram kemur hér að ofan er lykilatriði að nemendur leggi sig fram. Ef námi er ekki sinnt þá verður árangurinn í samræmi við það. Mikilvægt er fyrir foreldra að fylgjast vel með námi og að verkefnum sé skilað. Aðhald kennara verður alltaf minna ef allt nám færist í fjarnám.
Að lokum skiptir máli að muna að alls ekki er víst að til lokunar komi. Það er einnig mjög mikilvægt að halda ró sinni og vinna jafnt og þétt að þeim markmiðum sem þið, kæru nemendur, hafið sett ykkur fyrir önnina.
Með bestu kveðju,
Kristinn Þorsteinsson, skólameistari