Saga skólans

Upphaf skólans

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ var formlega stofnaður 1. ágúst 1984 með sérstökum samningi
er gerður var á milli menntamálaráðuneytisins og bæjarstjórnar Garðabæjar. Í samningi
þessum er kveðið á um fyrirkomulag skólahalds og hljóðar 1. grein svo: ,,Í Garðabæ skal
starfa skóli fyrir nemendur á framhaldsskólastigi er sjái um allt nám þar að loknum
grunnskóla. Skólinn skal taka við framhaldsnámi sem verið hefur við Garðaskóla".
Árið 1978 voru stofnaðar framhaldsdeildir við Garðaskóla og nefndar Fjölbrautir Garðaskóla.
Nemendur gátu lokið þar tveggja ára námi en urðu síðan að leita til annarra skóla.
Framhaldsdeildunum óx fiskur um hrygg og vorið 1982 útskrifuðust fyrstu stúdentarnir frá
Fjölbrautum Garðaskóla með hjálp Flensborgarskóla.

Húsnæði


Skólinn er nú til húsa í nýju húsnæði að Skólabraut. Hinn 19. nóvember 1993 var undirritaður samningur milli ríkisins annars vegar og sveitarstjórna Garðabæjar og Bessastaðahrepps hins vegar um byggingu á nýju skólahúsi við Bæjarbraut í Garðabæ. Flutt var inn í nýja og glæsilega byggingu í september 1997.

Hlutverk

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ starfar nú samkvæmt nýjum lögum um framhaldsskóla frá 1995 og nýrri reglugerð um framhaldsskóla. Þar er kveðið á um almenn markmið og hlutverk framhaldsskóla á Íslandi, þ.e. að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðissamfélagi og veita þeim alhliða menntun sem nýtist bæði í starfi og tómstundum.
Skólinn skal því m.a.:
stuðla að alhliða þroska nemenda með því að veita þeim viðfangsefni við hæfi hvers og eins,
búa nemendur undir sérhæfð og/eða almenn störf í atvinnulífinu,
búa nemendur undir áframhaldandi nám í sérskólum eða háskólum,
þjálfa nemendur í að vinna með öðrum og taka tillit til annarra,
veita nemendum þekkingu og þjálfun sem auðveldar þeim að taka sjálfstæða afstöðu til
manna og málefna, þjálfa nemendur í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, stuðla að því
að nemendur öðlist skilning á samfélagi í sífelldri þróun og veita þeim þjálfun og þekkingu til
virkrar þátttöku í því, leitast við að kenna nemendum að njóta menningarlegra verðmæta og
meta þau.

Auk þessara almennu markmiða leitast Fjölbrautaskólinn í Garðabæ við að vera
virkt afl í menningarlífi síns umhverfis.